FRÆÐSLA OG NÁMSKEIÐ
Sálfræðingar METIS-sálfræðiþjónustu hafa mikla reynslu í vinnu með öllum skólastigum, allt frá leikskóla upp í háskóla og fjölbreytt fræðsla er í boði fyrir starfsfólk, nemendur og foreldrafélög. Í boði eru styttri og lengri fyrirlestrar auk námskeiða sem aðlaga má hverri stofnun.
Dæmi um fræðsluerindi sálfræðinga METIS - sálfræðiþjónustu:
-
Andlegar og félagslegar hliðar þess að hætta að vinna. Fræðsla þar sem áhersla er lögð á að styðja starfsfólk við að undirbúa starfslok vegna aldurs, aðlaga sig breyttu lífsmynstri og stuðla að innihaldsríku lífi að starfi loknu.
-
Börn og sorg. Fræðsla fyrir aðstandendur um hvernig börn upplifa sorg og leiðir til stuðnings.
-
Félags- og tilfinningaþroski barna. Fræðsla fyrir starfsfólk skóla um hvernig mæta má ólíkum þörfum eftir aldri barna með því markmiði að styrkja sjálfsmynd nemenda og bæta líðan.
-
Geðheilsa. Fræðsla fyrir framhalds- og háskólanema um hvernig efla megi geðheilsu.
-
Geðrækt barna. Fræðsluerindi fyrir foreldra ungra barna þar sem áhersla er lögð á gagnlegar aðferðir um hvernig foreldrar geta styrkt líðan barna sinna.
-
Hvernig er best að vinna með börnum með hegðunar- og tilfinningavanda? Fræðsla fyrir starfsfólk skóla um ólíkan vanda barna og hvaða aðferðir hafa sýnt góðan árangur til að bæta samskipti og samvinnu.
-
Kvíði barna og ungmenna. Fræðsluerindi fyrir foreldra um kvíða og hagnýtar leiðir til að auka hugrekki og vellíðan.
-
Kvíði barna og unglinga á tímum COVID. Fræðsla fyrir foreldra um kvíða með áherslu á áhrif aðstæðna sem skapast hafa vegna COVID-19 og gagnlegar leiðir til að styrkja líðan barna.
-
Loftslagskvíði. Almenn fræðsla um loftslags-/umhverfiskvíða og gagnlegar aðferðir til að takast á við þá líðan.
-
Ofbeldi gegn börnum. Fræðsla um einkenni ofbeldis og hvernig bregðast skal við ef grunur vaknar um að barn verði fyrir ofbeldi.
-
Samskipti á vinnustað. Fræðsla með áherslu á hvernig styrkja má samskipti samstarfsfólks til að efla starfsánægju og almenna líðan.
-
Samskipti foreldra og barna. Fræðsluerindi fyrir foreldra um gagnlegar aðferðir til að efla góð samskipti og hvernig taka má á erfiðri hegðun.
-
Samskipti og sjálfsmynd. Fræðsla fyrir unglinga um hvernig styrkja má sjálfsmyndina og bæta samskipti við aðra.
-
Uppeldistök. Fræðsluerindi fyrir starfsfólk leikskóla um hagnýtar leiðir til að takast á við hegðun barna og styrkja sjálfsmynd þeirra.
NÁMSKEIÐ
Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra 3-6 ára barna sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir. Námskeiðið miðar að því að fræða foreldra um eðli kvíða og kenna þeim leiðir til að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra. Markmið með slíku forvarnarnámskeiði er að minnka kvíðahegðun barna og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að börn þrói með sér kvíðaröskun seinna meir. Námskeiðið er haldið í sex skipti.
Klókir krakkar er hópmeðferð fyrir 8-12 ára gömul börn sem glíma við kvíða og foreldra þeirra. Markmiðið er að þjálfa börnin í að takast á við kvíðann svo hann trufli sem minnst daglegt líf þeirra og að þjálfa foreldra til að styðja við færni barnsins. Börn og foreldrar eru þjálfuð í sitt hvorum hópnum ásamt því að eiga sameiginlega stund í hverjum tíma til að stilla saman strengi og undirbúa heimavinnu. Námskeiðið er haldið í tíu skipti.
Tjillið/Haltu kúlinu er hópmeðferð fyrir unglinga. Það byggir á sama grunni og Klókir krakkar en er aðlagað að ungmennum frá 13-18 ára. Markmiðið er að kenna og þjálfa aðferðir sem gagnast til að takast á við kvíða og draga úr forðunarhegðun. Námskeiðið er haldið í tíu skipti.
Uppeldi barna með ADHD. Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá við að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með þessa og tengdar raskanir. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma.